Nýársganga 2008
Sunnudaginn 14. janúar fór ég í borgargöngu Hornstrandarfara FÍ. Við löbbuðum frá skrifstofu FÍ í Mörkinni eftir Suðurlandsbrautinni að Steinahlíð. Steinahlíð er leikskóli og var gjöf til Barnavinafélagsins Sumargjöf. Við löbbuðum næst meðfram Sæbrautinni og inná Drekavog. Á horni Drekavogs og Efstasunds er hús sem áður stóð við Aðalstræti 6 og var byggt 1825. Næst litum við á Sólheima 5, hús sem reist var 1957-59 og er friðað sem dæmi um hús byggð á 20. öldinni. Það var teiknað af Gunnari Hanssyni. Við héldum áfram göngunni að Gunnarshúsi að Dyngjuvegi. Það var reist af Gunnari Gunnarssyni rithöfundi og teiknað af Hannesi Kr. Davíðssyni. Við héldum svo að Brúnavegi og skoðuðum þar Gamla pósthúsið. Húsið var reist 1847 og stóð þar sem nú er Hótel Borg og er pósthúsið sem Pósthússtræti heitir eftir. Að síðustu stöldruðum við að Laugatungu í Grasagarði Reykjavíkur.
Pétur H. Ármannsson sá um leiðsögn og við löbbuðum tæpa 7 kílómetra á um tveimur klukkutímum.
Read More