Eyjafjallajökull
Eyjafjallajökull var genginn 26. apríl af Skunda. Við lögðum af stað úr bænum upp úr sjö að morgni og keyrðum á Selfoss. Þar hitti okkur fararstjórinn, Smári Stefánsson, og var hann með búnað með sér. Línu, belti, brodda og ísexi. Við héldum svo áfram að Seljavallalaug þar sem gangan hófst. Við byrjuðum að ganga rétt fyrir 10. Eftir að hafa gengið tæpa þrjá klukkutíma eða 4,3 kílómetra fórum við í línu. Auðveldlega gekk að labba í snjónum. Við gengum svo 3,5 kílómetra í snjónum upp á Hámund á þremur og hálfum klukkutíma, við vorum sem sagt sex klukkustundir og átján mínútur á leiðinni upp. Á leiðinni upp fann fararstjórinn sprungu sem þurfti að klofa yfir. Á Hámundi fengum við okkur að borða í þoku og litlu útsýni. Við héldum svo á Guðnastein í byl og snjókomu. Á leiðinni milli tinda þurftum við að klofa yfir sprungu og lenti Álfhildur í smá vandræðum þegar bakinn brast undan henni - en hún lenti í fanginu á Pierre. Eftir að hafa staðið á Guðnasteini í hríðarbyl í smá stundu hófum við gönguna niður. Alls voru það 7,6 kílómetrar á tveimur klukkustundum og fjörtíu mínútum. Leiðin niður í snjónum var eilítið leiðinleg því snjóbráð var nokkur og við sukkum í snjóinn.
Alls gengum við 15,9 kílómetra á tæpum 10 klukkustundum.
Read MoreAlls gengum við 15,9 kílómetra á tæpum 10 klukkustundum.