Strútsskáli - Emstrur
Þann 28. ágúst var lagt upp frá Strútsskála. Leiðin lá upp frá skálanum eftir Veðurháls. Gengið var upp að vörðu á hæsta punkti beint fyrir ofan skálann. Svo var stefnan sett nokkurn vegin í suður og var varða á leiðinni sem ég var ekki punkt á. Við þriðju vörðu var stefnan sett í vestur beint yfir Mælifellssand að vörðu við Slysaöldu. Gönguleiðin liggur annars nær fjallshlíðinni. Það var farið mjög hratt yfir sandinn, enda auðveldur yfirferðar. Við slysaöldu var stefnan sett í norður og þar var fljótlega komið að nokkrum sprænum. Þá var að fara í sandalana og þeir voru á fótunum þar til komið var norður fyrir allar sprænurnar. Þá var nú gott að fá sér smá heitt kakó - því lækirnir voru kaldir. Nú var stefnan aftur sett í vestur og farið norðan Einstigsfjalls, þar kemur maður í smá dalverpi sem farið er fyrir. Svo er farið norður fyrir Hvanngilshnausa og þá lendir maður inn á göngustíg frá Hvanngili því vinsælt er að labba upp á Hvanngilshnausa frá skálum FÍ í Hvanngili. Nokkrar stikur við stíginn höfðu verið brotnar eða rifnar upp og reyndum við að laga þær eftir bestu getu. Í Hvanngili var smá pása og svo haldið áfram. Yfir Bláfjallakvísl þurfti að vaða. Veðrið hafði verið ágætt hingað til en ljóst var að rigningarský voru að nálgast og því gengið rösklega eftir stígnum að Emstrum. Þegar að skálanum var komið var farið að dropa aðeins og seinna um kvöldið var grenjandi rigning, samt var farið út og rýnt í Markarfljótsgljúfur.
Þetta voru 28,3 kílómetrar sem gengnir voru þennan daginn milli Strútsskála og Emstra. Það tók rétt rúmlega átta klukkustundir. Um kvöldið var labbað í rigningunni smá hringur upp á 3,5 kílómetra á rúmlega klukkustund.
Read MoreÞetta voru 28,3 kílómetrar sem gengnir voru þennan daginn milli Strútsskála og Emstra. Það tók rétt rúmlega átta klukkustundir. Um kvöldið var labbað í rigningunni smá hringur upp á 3,5 kílómetra á rúmlega klukkustund.