Hróarstindur
Þann 19. ágúst mætti ég niður á BSÍ til að fara með Útivist á Hróarstind. Eitthvað voru fáir mættir þegar ég kom og fjölgaði hægt. Að lokum vorum orðin 9 (með fararstjóra) og vantaði einn upp á til að af ferðinni yrði. Ferðinni var sem sagt aflýst - en þar sem við vorum öll búin að smyra nesti ákváðum við að fara á einkabílum. Við fórum á þremur bílum og fórum einum afleggjara lengra en að Ölveri. Nú var gengið norðan megin Hafnardals, en þegar var farið Ölver-Grjóteyri var gengið sunnan megin. Gekk bara vel að ganga, auðvelt var að fara yfir Illagil og Skaragil með því að fylgja slóðinni. Við fengum okkur kaffi í 400 metra hæð og héldum svo áfram inn Skaradal en reyndum að hækka okkur jafnt og þétt. Að lokum komust við upp á Hróarstind og höfðum þá hækkað okkur um 716 metrar. Þarna eru 3-4 tindar á litlum bletti og var ákveðið að hoppa upp á þann sem næstur okkar var og athuga hæðina þar - reyndist hún vera 780 skv. GPS tækinu. Þriðji tindurinn var skammt unda og ákveðið að labba að honum og athuga hvort hann væri auðveldur til uppgöngu, en svo reyndist ekki vera. Við tókum þá ævintýralegu ákvörðun að athuga með niðurgöngu í Hróarsdal. Eftir að hafa lækkað okkur um 180 metra varð ljóst að neðar varð ekki komist þá leiðina með góðu móti. Þá var stefnan sett upp 150 metra og vorum við þá komin á betri slóðir og settumst niður og fengum okkur kaffi. María vildi endilega fara með okkur niður leið sem hún hafði farið upp nokkrum dögum áður - þ.e. í gegnum skriðu. Gekk það vel en svolítið skrítin tilfinning að standa í grjótinu sem lagði á stað niður með mann.
Við gengum 12,1 kílómetra á sex og hálfum tíma. Heildarhækkun 860 metrar. Veðrið var gott til göngu, kannski í heitara lagi, en engin úrkoma.
Read More