Hrúðurkarlar og Litla-Björnsfell
Þann 2. september fór ég með Útivist á Hrúðurkarla og Litla-Björnsfell. Gangan hófst við Kerlingu og var labbað norður fyrir hana og að Hrúðurkörlum. Rétt áður en ganga upp á einn Hrúðurkarlinn átti að hefjast varð einn göngumaður fyrir því óláni að hrufla sig á fætinum og var stoppað til að gera að sárum hans. Við hin fengum okkur kaffi á meðan. Að kaffi loknu var farið upp á Hrúðurkarl og útsýnisins notið og myndir teknar. Næst var stefnan sett á Litla-Björnsfell. Gangan upp gekk ágætlega, en smá klifur fyrir þá sem vildu komast upp á hæsta hólinn á fellinu. Uppi á fellinu var tekið seinna kaffi. Upphaflega hafði átt að fara suður að línuvegi og láta rútuna taka okkur upp þar, en það var ákveðið að labba suður með Hrúðurkörlum í staðinn. Veðrið var ágætt til göngu en farið að bera á smá úða í göngulok.
Göngleiðin var 14,6 kílómetrar og var farin á tæpum sex klukkustundum.
Read More